Haustið 1984 voru tvö elstu börn Fern Nichols að hefja göngu á nýju stigi skólagöngunnar. Andi hennar var þungur og hjarta hennar þjakað áhyggjum því hún vissi að þau myndu nú þurfa að takast á við þeirra stærstu prófraun hvað varðar siðlaus gildi, grófan talsmáta, þrýsting frá félögum og heimspeki sem myndi ögra trú þeirra. Hún hrópaði til Drottins og bað hann um að vernda þau, gera þeim kleift að sjá muninn á réttu og röngu og að taka góðar ákvarðanir.

Byrðin að biðja fyrir drengjunum sínum var yfirþyrmandi. Hún bað Guð að leiða til sín aðra móður sem hefði sömu byrði að bera og væri tilbúin að biðja með henni fyrir börnum þeirra og skólanum. Guð heyrði ákall hjarta hennar og leiddi til hennar aðra móður sem deildi þessari byrði. Öðrum var boðið að koma og þær byrjuðu að hittast strax næstu viku á eftir.

Þetta var upphaf Mothers in Prayer International, MIPI. Þegar mæður hófu að deila því hvað Guð var að gera í lífi þeirra og lífi barna þeirra í gegnum bæn, byrjuðu að myndast aðrir hópar alls staðar í heimahéraði hennar í Kanada.

Sumarið 1985 flutti Fern ásamt fjölskyldu sinni til Kaliforníu. Hún uppgötvaðu fljótlega að Guð hafði opnað fyrir hana fleiri tækifæri til að halda áfram þessari þjónustu. Enn á ný bað Fern Guð um að reisa upp mæður sem væru viljugar að skipa sér í skarðið í bæn fyrir börnum sínum. Það haust byrjaði Fern með fyrsta MIP hópinn í Kaliforníu og fljótlega fóru fleiri hópar að skjóta upp kollinum í kringum Fern. Þessi grasrót breiddist hratt út þegar mæður báðu fyrir því að Guð myndi reisa upp bænahópa fyrir skólunum í fylkinu og síðar um alla þjóðina.

Haustið 1987 kom út fyrsti bæklingurinn og í janúar 1988 var fyrsta ráðstefnan haldin þar sem saman komu 35 konur. Þær báðu fyrir því að þjóðin myndi öll fá að heyra af starfinu og Guð svaraði þeirra bæn það vor þegar Fern fékk símtal frá framleiðanda Focus on the Family. Í maí það ár var Fern ásamt tólf öðrum mæðrum í viðtali hjá Dr. James Dobson! Þetta fyrsta útvarpsviðtal fékk gífurleg viðbrögð en 20.000 manns höfðu samband við stöðina.

Í dag hefur MIPI hópa í hverju einasta ríki Bandaríkjanna og í yfir 140 löndum á heimsvísu. Bæklingurinn hefur verið þýddur á rúm 45 tungumál og er íslenska meðal þeirra.

Starfið hófst á Íslandi árið 2009 undir heitinu Mæður í bæn. Það var í framhaldi af því að ein móðir hlustaði á Fern Nichols segja frá stafinu á ráðstefnu í Osló í Noregi. Það ár urðu til nokkrir bænahópar á höfuðborgarsvæðinu og einnig var gefinn út bæklingur á íslensku. Síðan þá hefur hópunum fjölgað og eru nokkrir bænahópar víðsvegar um landið.

Mæður á Íslandi hafa fengið að sjá mikla umbreytingu og lausn í lífi barna sinna, kennara í skólunum og skólasamfélaginu vegna bæna til Guðs.

Tengiliður MIPI á Íslandi er Jóhanna Sólrún Norðfjörð.

 

 

Staðreyndir

Á heimsvísu, Útgáfa, Þýðingar, Ýtarefni, Aðrar bækur eftir Fern Nichols